Hugarórar heimspekings um Tommy Robinson

RÚV – Viðar Þorsteinsson

Viðar Þorsteinsson heimspekingur, einn af forvígismönnum Sósíalistaflokks Íslands, lýsir í viðtali við morgunútvarp RÚV hugmyndum sínum um Tommy Robinson. Nánast ekkert af því sem kemur fram í samtali Viðars við Sigmar Guðmundsson og Sigríði Dögg Auðunsdóttur er sannleikanum samkvæmt. Ekki er fótur fyrir neinum fullyrðinganna. Hægt er að ganga úr skugga um það með einfaldri leit á Google.

Hugarórar Viðars Þorsteinssonar eru til marks um fordóma og fáfræði sem eiga sér enga líka í annars skrautlegri umræðu um Tommy Robinson. Þá er ábyrgð RÚV og Sigmars Guðmundssonar blaðamanns á þessu axarskafti engu minni. Hlýtur að vera hægt að ætlast til þess að útvarpsmenn hafi lágmarksþekkingu á umræðuefninu áður en þeir kalla fólk í viðtöl til sín.

Í Siðareglum Ríkisútvarpsins segir t.d.:

Starfsfólk sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni eða dagskrárgerð sannreynir að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum. Þetta á sérstaklega við þegar upplýsingar geta verið litaðar af persónulegum hagsmunum eða geta verið til þess fallnar að skaða aðra.

Starfsfólk stendur vörð um trúverðugleika stofnunarinnar. Staðreyndavillur og mistök, sem varða umfjöllun eða samskipti við almenning, eru undanbragðalaust leiðrétt eins fljótt og mögulegt er.

Sigmari Guðmundssyni hefur verið gefinn kostur á því að bæta úr þessu. Í bréfi sem honum var sent segir m.a.: ,,Vildi gefa þér kost á því að biðjast afsökunar á þessu og draga þessi ummæli til baka, benda hlustendum þínum á að við frekari eftirgrennslan hafir þú komist að því að lýsing Viðars á Tommy Robinson sé röng, og fullvitað sé að hann sé ekki nasisti og vilji ekki kasta minnihlutahópum í gasklefa!“

Nánar verður fjallað um þetta mál síðar.